TOP

Matur sem á alltaf að vera til í eldhúsinu…

Hvað leynist í eldhússkápunum þínum? Hvernig væri nú að yfirfara aðeins skápana og athuga hvort þú getur ekki gert aðeins betur og fært þetta upp á næsta stig með meiri hollustu.

Máttur matarins er mikill eins og við vitum öll og ég mun tönglast á því ævilangt við ykkur að maturinn er besta lyfið til að halda heilsu og því skiptir svo miklu máli að vanda valið þegar kemur að því hverju við höfum aðgang að í eldhúsinu til að næra okkur.

Mig langar að deila með ykkur mat sem ég á alltaf til og sem ég get hreinlega ekki verið án og er stór hluti af mataræðinu á mínu heimili en við erum 5 í heimili og þetta er svona grunnurinn, svo bætist auðvitað alls konar við þetta og fer eftir hvað heimilisfólkið vill hverju sinni.

  1. Möndlur og aðrar hnetur, hörfræ og chia fræ. Ég nota töluvert mikið tahini sesamsmjör sem álegg ofan á hollt brauðmeti eða smurt á eplabita.. Hnetur og fræ eru stútfull af steinefnum eins og magnesíum, kalki og sínk og góðum fitum. Algjör redding sem millimál, líka í kökur eða boosta.
  2. Fersk eða frosin ber. Gott að eiga í frysti frosin krækiber, bláber og blönduð ber. Svo er líka sniðugt að narta í goji ber sem millimál enda löngu vitað að ber innihalda mikið magn af andoxunarefnum sem vernda frumur okkar gegn öldrun og skemmdum.
  3. Ólífuolía, kókósolía, hampolía, hörfræolía, omega 3 olíur og lýsi. Nuaðsynlegt að taka inn góðar olíur til að smyrja liði, jafna hormónana, styrkja ónæmiskerfi og halda húðinni mjúkri.
  4. Hýðisgrjón, haframjöl, heilhveiti, bygg, gróft spelt, quinoa og bókhveiti. Nota ýmist í morgungrauta, bakstur eða sem meðlæti með mat. Gróf kolvetni gefa okkur jafna orku yfir daginn. Ég baka líka oft næringarík brauð og hendi í hollar lummur eða vöfflur þegar ég er í stuði.
  5. Egg, kjúklingur, lambakjöt, fiskur og hreinar lífrænar mjólkurvörur. Góð gæða prótein búa til mótefni, hormón, taugaboðefni og ensím sem eru okkur afar mikilvæg í líkamanum. Hérna gildir að nota gott hráefni án aukaefna eins og hægt er. Mér finnst líka gott að létta aðeins á kerfinu annað slagið og elda ljúffenga máltíð úr linsubaunum eða kjúklingabaunum með fullt af grænmeti.
  6. Spínat, grænkál, klettasalat og annað grænt og vænt. Vissulega nota ég mikið af öðru grænmeti líka en ég passa alltaf að eiga eitthvað grænt í skápnum því það er svo nærandi, hreinsandi og virkar eins og súrefnishleðsla á frumurnar. Reyni að fá mér einn grænan safa eða boost úr einhverju grænu helst daglega.
  7. Sítrónur. Mér finnst mjög gott að fá mér sítrónu í volgt vatn en sítrónur eru hreinsandi, örva gallblöðru í að brjóta niður fitu og leysa upp slím í öndunarfærum. Hressandi og svalandi.
  8. Geitaostur. Ég er búin að vera háð geitaosti í mörg ár og finnst hann algjört lostæti, mun auðveldari fyrir meltinguna heldur en kúamjólkurostur og hollur valkostur sem kalk og próteingjafi. Hægt að fá hreinan hvítan geita smurost, geita fetaost og brúnan geitaost sneiðum og allt heimilisfólkið mitt borðar geitaost á heimilinu með bestu lyst.
  9. Avokadó. Borða sennilega ½-1 avókadó á dag og finnst það ómissandi hluti af mataræðinu enda þvílík hollusta og gefur okkur trefjar, holla fitu, E vítamín og plöntuefni sem verja okkur gegn sjúkdómum.
  10. Dökkt súkkulaði. Lífrænt dökkt súkkulaði er mitt sparinammi og er löngu búin að telja mér trú um að það hressir, bætir og kætir!

Ásdís xoxo

what do you think?

Netfang þitt verður ekki birt.