TOP

5 ilmkjarnaolíur sem gott er að hafa við höndina

Ég á alltaf til nokkrar tegundir af ilmkjarnaolíum til að nota heima og eins þegar ég er á ferðalögum og svo finnst mér líka gott að vera með 1-2 olíur í veskinu mínu svona til vonar og vara. llmkjarnaolíur eru nefnilega kröftugasta form af jurtalyfjum og hafa mjög sterka virkni. Þessar olíur myndast þegar vissir plöntuhlutar jurtar eru eimaðir og útkoman eru fjölvirkar náttúrulegar olíur sem geta gagnast okkur á ýmsan hátt og hafa margar þessar olíur öfluga örverudrepandi virkni.

Mig langar að deila með ykkur fróðleik um þær olíur sem ég nota mest og hvernig þær eru notaðar:

  1. Lavender. Æðisleg olía sem hefur slakandi, sefandi og róandi áhrif. Lavender er líka mjög græðandi og sótthreinsandi og er gjarnan notuð í krem og smyrsli. Hún er notuð m.a. við skordýrabiti, bólum og smávægilegum bruna í húð. Hún róar pirraða húð og ég hef sett nokkra dropa af henni út í grunnkrem ef mikill kláði er í húð og til að flýta fyrir gróanda húðarinnar. Svo er snilld að setja 5 dropa af lavender á koddann hjá börnunum til að róa þau ef þau eiga erfitt með að sofna. Hægt að setja hana í úðabrúsa með smá vatni og spreyja yfir þau en það þykir þeim voða notalegt.
  2. Peppermint. Piparmyntu olían er oftast notuð við höfuðverk og mígreni og þá settir 1-2 dropar af henni og nuddað sitthvoru megin á gagnaugun. Olían er líka seld í hylkjum og hægt að nota til inntöku gegn ristilkrampa en hún mjög krampastillandi og róandi fyrir magann. Það er líka hægt að setja nokkra dropa í grunnolíu og nudda á bólgur og verki útvortis. Piparmyntan er talin bólgueyðandi og mild verkjastillandi og oft notuð í fótakrem til að fríska og kæla þreytta fætur, í kælikrem á vöðvabólgu o.fl. Ég nota sjálf piparmyntu olíuna mikið og set 1-2 dropa oft í grænu boostana mína til að gera þá mun frískandi. Svo þykir mér líka ofsa gott að setja 1-2 dropa af piparmyntu olíu út í heimagerða súkkulaðikonfektið mitt…
  3. Eucalyptus. Þessi olía hentar einstaklega vel þegar um kvef, ennis- og kinnholusýkingar og aðrar öndunarfærasýkingar er að ræða og þá er hægt að anda henni að sér reglulega eða setja olíuna í smyrsli sem er borið á bringuna. Hún er slímlosandi, bakteríudrepandi og ónæmisstyrkjandi. Ég nota hana alltaf þegar einhver á heimilinu er að byrja fá kvef og set þá 1-2 dropa í 1 tsk af Manuka hunangi og svo gleypa. Líka sniðugt að setja sama magn eða 1-2 dropa í 5 ml af möndlu eða ólífuolíu og hrista saman, bera svo þunnt lag á bringu og neðra bak fyrir svefn.
  4. Lemon. Sítrónu olían er talin hafa upplífgandi og frískandi áhrif á hugann og jafnvel jákvæð áhrif á einbeitingu. Hún er mjög sótthreinsandi og gjarnan notuð til að sótthreinsa sár og skrámur. Sítrónu olían hefur fælandi áhrif á mörg skordýr og því upplagt að nota hana í úðabrúsa með vatni og úða á ber húðsvæði til að fæla flugur og önnur skordýr frá. Það er líka hægt að nota sítrónuolíu til að þrífa heima hjá sér og nota þá í úðabrúsa.
  5. Tea tree. Þessi olía er mikið notuð í húðvörur gegn bólum og fyrir feita húð en hún dregur úr framleiðslu á fitu í fitukirtlum húðarinnar. Hún er líka alhliða sótthreinsandi og hefur breiða virkni gegn mörgum örverum. Tea tree olían er mjög sterk og hér gildir reglan minna er betra en meira;)

Hafa ber í huga að þessar olíur eru í flestum tilfellum ekki ætlaðar til inntöku og í sumum tilfellum geta þær verið of sterkar á húðina útvortis ef notað er of mikið magn. Það getur verið gott að þynna ilmkjarnaolíur út og setja nokkra dropa í grunnolíur eins og möndluolíu eða ólífuolíu.

Ásdís xoxo

what do you think?

Netfang þitt verður ekki birt.