TOP

Döðlu súkkulaðikaka

 

Framundan er ein stærsta súkkulaðiveisla ársins og því ber að fagna með því að njóta þess að gæða sér á ljúffengu súkkulaði í allri sinni dýrð! Flestum er nú sennilega orðið kunnugt að hreint kakó og dökkt súkkulaði þykir hollt fyrir heilsuna fyrir utan hvað það er það gott til að gleðja sálina. Kakóbaunin inniheldur fjölda virkra plöntuefna, næringarefna og andoxunarefna sem geta haft ýmis jákvæð áhrif á líkamann. Ég er sérleg áhugamanneskja um kakóbaunina og þeir sem til mín þekkja vita að ég er mikil súkkulaðikona og nýti mér ávallt góð tilefni til þess að henda í súkkulaðibakstur. Lífið er hreinlega of stutt til að sleppa súkkulaði enda snýst heilbrigt mataræði ekki um böð og bönn heldur eigum við að njóta með okkar nánustu og gleðjast saman með mat sem veitir okkur ánægju þegar þannig ber undir. Mig langar því að deila með ykkur einni uppskrift úr súkkulaðibæklingnum mínum sem slær alltaf í gegn, hvort sem það er í saumaklúbbnum, afmæli eða matarboðum. Þessi kaka er rík af gæða súkkulaði og tilvalin til að njóta yfir páska hátíðina sem framundan er þegar góða gesti ber að.

 

1 ½ bolli döðlur Himnesk Hollusta
1 ½ bolli pekan eða valhnetur Himnesk Hollusta
5 msk gróft spelt eða heilhveiti Himnesk Hollusta
1 bolli 70% súkkulaði frá Chocolate & Love
(1/2 bolli súkkulaði aukalega til að bræða ofan á köku)
Ristaðar kókósflögur Himnesk Hollusta (ofan á köku)
1 tsk vanilluduft Naturata
5 msk vatn
3 egg

Saxið döðlur og súkkulaði. Hrærið öllu saman í skál og setjið í kökuform. Bakið við 180°C í 20 mín.

Fyrir þá sem eruð á glúteinlausu mataræði þá er hægt að nota glúteinlausa bökunarblöndu eða td bókhveitimjöl í staðinn ef vill. Fyrir sérlega súkkulaði unnendur mæli ég með að bræða ½ plötu af 70% súkkulaði yfir vatnsbaði og hella yfir kökuna. Stráið ristuðum kókósflögum yfir kökuna og berið fram með þeyttum rjóma og ferskum berjum.

Ásdís grasalæknir