TOP

Byrjum daginn vel!

byrjum daginn vel

Flestum er umhugað um að bæta heilsu sína með ýmsum leiðum en við getum haft svo mikil áhrif á líðan og heilsu okkar ef við erum að fá fjölbreytta og holla næringu daglega ásamt reglulegri hreyfingu. Það eru þessir grunnþættir sem er svo mikilvægt að hafa sem hluta af okkar lífsstíl og eru undirstaða góðrar heilsu.

Við vitum nú til dags að í fæðunni okkar er að finna fjölmörg virk efni sem hafa fyrirbyggjandi áhrif gegn ýmsum sjúkdómum og með þetta í huga ættum við því að reyna temja okkur hollar matarvenjur og vanda valið þegar kemur að því að velja matinn sem fer ofan í okkur. Þar sem morgunmaturinn kemur okkur af stað inn í daginn langar mig í þetta skiptið að deila með ykkur uppskrift að góðum morgunhristing sem er sneisafullur af góðri næringu. Þessi hristingur gefur okkur t.d. prótein, trefjar, vítamín og andoxunarefni og hollar omega 3 fitusýrur. Einnig hægt að nota möndlumjólk og avokadó í staðinn fyrir mjólkurvörur ef vill og bæta við t.d. chia fræjum, kókósflögum, banana, kanildufti o.fl. Prófið ykkur áfram með nýjar og hollari fæðutegundir sem gefa líkamanum fjölbreytta næringu.

Morgunhristingur:

400 ml vatn

5 msk lífræn grísk jógúrt

1 b frosin ber

½ b frosið mangó

1 msk hveitikím

1 msk hörfræolía

Smá vanilluduft