TOP

Burnirót – Hið íslenska ginseng?

Burnirótin (Rhodiola rosea) eða arctic root eins og hún er gjarnan kölluð er ein af mínum uppáhalds jurtum en ég nota hana talsvert í jurtablöndurnar mínar. Burnirótin er ein vinsælasta lækningajurtin í dag en upphaflega var hún notuð af rússneskum hermönnum til að auka frammistöðu þeirra og úthald, og einnig hefur hún verið notuð hjá ýmsum þjóðflokkum í gegnum tíðina til að auka vinnuþrek og langlífi.

Klínískar rannsóknir á burnirót sýna að hún eykur einbeitingu, líkamlegt og andlegt úthald, og vinnur gegn streitu og álagi. Hún hefur áhrif á innkirtakerfi líkamans og framleiðslu taugaboðefna eins og serótóníns, dopamíns og noradrenalíns og dregur úr streituviðbrögðum. Hún virðist einnig hafa sterka andoxunarvirkni, vernandi áhrif á lifrarfrumur og ónæmisstyrkjandi áhrif. Þrátt fyrir að hafa aukandi áhrif á orku þá virðist hún ekki hækka blóðþrýsting eins og margar tegundir ginsengs gera. Burnirótin er gjarnan notuð gegn orkuleysi, sleni, depurð/þunglyndi, streitu, ófrjósemi og minnkaðri kynlöngun.

Mín reynsla af notkun hennar er sú að hún gagnast afar vel ef um orkuleysi, depurð og mikla streitu er að ræða og einnig til að skerpa á einbeitingu og virkni heilans. Hún hefur reynst íþróttamönnum og fólki sem æfir mikið mjög góð til að auka úthald. Hún getur aukið áhrif annarra örvandi lyfja/bætiefna og því þarf að hafa það í huga í þeim tilfellum. Burnirótin er mjög fjölvirk jurt og er mælt með að taka hana ekki seint á daginn eða kvöldin, en æskilegt er að taka hana inn á morgnana og/hádeginu.