TOP

Hollt nesti og Orkuklattar

Hver kannast ekki við að vera staddur á þjóðvegi 1 þegar nartþörfin og hungrið gera vart við sig og eina í stöðunni er að koma við á næstu vegasjoppu og úða í sig einhverju mishollu til að geta haldið förinni áfram. Þar sem ég er talin vera nestisperri með meiru af þeim sem til mín þekkja þá er það löngu liðin tíð að ég þurfi að treysta á misgott úrval í sjoppum landsins og ferðast nú til dags vel birgð af ýmsu hollustu nestisgúrmí á ferðum mínum innanlands sem utan. Það er sem betur fer þannig í dag að úrval af hollum millibitum hefur stóraukist og því mun auðveldara að verða sér úti um hollari valkosti. Ég ætla að deila með ykkur nokkrum hugmyndum að nesti sem þið getið keypt tilbúið í næstu matvörubúð og einnig gefa ykkur uppskrift að næringaríkum og gómsætum orkubitum, en ég hef notað þessa uppskrift mikið síðan að börnin voru lítil og þeir metta vel og því tilvalið að taka þá með í ferðalagið og útileiguna! Líka upplagt að taka orkubitana með sem nesti í vinnuna.

Hugmyndir að sniðugu nesti og snarli í fríið, skólann eða vinnuna…

Nakd bar, seaweed snakk, ristaðar baunir frá Brave, maískökur, Trek próteinstykki, Protein ball kúlur, kókósbiti og kasjúhnetur. Bráðsnjallt að grípa svona ´on the go´nesti með sér á hraðferð og einfalda daginn þegar kemur að því að næra mannskapinn á ferð og flugi!

 

Orkuklattar með súkkulaði

4 b haframjöl

1 b sesamfræ

½ b sólblómafræ

1 b kókósmjöl

½ b gróft spelt

½ b valhnetur

1 ½ b kókósolía

1 tsk vanilluextract

1 b möndlumjólk

½ b saxað súkklaði

½ b lífræn trönuber

1 b hlynsíróp

6 egg

Hitið ofnin í 170-180°C. Smyrjið ofnskúffu. Blandið þurrefnum saman í skál og vökva í aðra skál. Blandið síðan öllu vel saman, hellið í ofnskúffu og bakið í 30-45 mín (ferð eftir ofnum, fylgist með þar til brúnast vel), ég setti á blástur síðustu 10 mín. Skerið síðan kökuna í litla ferninga. Það má alveg bræða smá súkkulaði yfir ef viljið. Þið getið notað hunang í staðinn fyrir hlynsíróp og notað rúsínur í staðinn fyrir bæði trönuber og súkkulaði eftir því hvað þið eigið til í skápunum en ég hef oft notað bara rúsínur. Passið upp á að nota lífræn trönuber því þessi venjulegu eru full af sykri en ég nota alltaf trönuberin frá Horizon sem er bæði mjúk og flott gæði. Mæli með að nota 70-80% lífrænt súkkulaði en ég notaði 80% súkkulaði frá Chocolate & Love sem er mitt allra besta uppáhalds súkkulaði (tips: þið getið sleppt trönuberjum alveg og notað meir af súkkulaði í staðinn, 1 b total saxað súkkulaði). Geymist í kæli í 5-7 daga og gott að skutla í frystirinn til að grípa í seinna.

Ég nota eins mikið lífrænt og get í mínu mataræði og uppskriftum og enda mun betri gæði, næringarinnihald og ríkara bragð af lífrænum vörum og fæðu. Þessir orkuklattar eru fullir af góðum trefjum, fitu, próteini og næringarefnum og gefa góða orku. Njótið!

Ásdís xoxo