TOP

5 hugmyndir að nesti í vinnuna

Margir eru undir miklu álagi og dagarnir oft yfirfullir af verkefnum í vinnu og annað eins prógram sem tekur við eftir vinnu. Þarna skiptir öllu að næra sig vel yfir daginn, vera fyrirhyggjusamur og ákveða um það bil hvað maður ætlar að setja ofan í sig í stað þess að grípa bara í næsta snickers bar eða sveitta samloku þegar maður er orðin sársoltin. En þetta getur verið áskorun fyrir suma þegar mikið er að gera og lítið eftir af orkunni eftir langan vinnudag. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa þetta í góðu ferli hjá sér þannig að afköstin verði meiri og einbeitingin og orkan verði í hámarki.

‘Failing to plan is planning to fail’ sagði einhver spekingurinn, en ef við ætlum okkur að ná árangri verðum við vissulega að hafa skipulag og plan, hvort sem markmiðið er að velja hollari fæðu eða verða heilsuhraustari eða eitthvað annað. Hér fylgja einfaldar hugmyndir hvernig við getum gert daginn okkar ‘hollari’ þrátt fyrir þétta dagskrá.

  • Elda máltíðir fyrirfram t.d. í ‘slow-cooker’ potti til að spara sér tíma. Þessir pottar elda nánast fyrir mann og hægt að láta kjöt og grænmeti malla með góðu kryddi með lítilli fyrirhöfn og á meðan getum við sinnt ýmsum verkefnum heima fyrir. Sniðugt að eiga eldað frosið kjöt í frysti til að henda í snögga pottrétti eða með steiktu grænmeti.
  • Eiga til niðurskorið grænmeti í ísskápnum í boxum til að eiga tilbúið í eldamennskuna. Gott að gera t.d. á sunnudegi fyrir komandi vinnuviku. Sjálf á ég oftast til saxað sellerí,   brokkolí, blómkál, gulrætur, hnúðkál, o.fl fleira grænmeti í bitum til að spara tíma.
  • Útbúa fræ og hnetumix í boxi til að eiga í skúffunni í vinnunni eða til að setja út á salat eða túnfisk/egg.
  • Henda í boost kvöldinu áður eða um morguninn til að grípa í ef tíminn naumur í hádeginu. Gefur okkur góða fyllingu og næringu. Hægt að lauma fullt af hollustu í boostin.
  • Eiga til við höndina í vinnunni hollt nasl sem millimál eins og lífrænar orkustangir, harðfisk, möndlusmjör, ávexti, dökkt súkkulaði, hrökkkex og hummus, kotasælu eða dós af hreinu skyri.