TOP

Nærandi snarl milli mála

IMG_2262Þegar slenið og orkuleysið hellist yfir okkur í amstri dags er gott að vera undirbúin og tækla svona orkulægðir með saðsömu og orkugefandi snarli og húrra upp kerfinu okkar! Dagleg vellíðan, orka og úthald byggir svo mikið á því hvaða fæðu við erum að velja ofan í okkur. Mataræðið hefur mun meiri áhrif en okkur grunar og er mjög stór þáttur í heilsufari okkar. Næringarrík fæða getur m.a. stuðlað að bættum svefni, skýrari hugsun, betra skapi og aukinni afkastagetu yfir daginn.

Að snarla á hollum millibitum heldur blóðsykrinum í jafnvægi og gefur okkur jafna orku til að takast á við verkefni dagsins. Þannig komum við í veg fyrir að við séum eins og jójó í orkunni okkar heldur helst hún mjög stöðugri og það hefur líka jafnvægisstillandi áhrif á geðið okkar og skýrari fókus á það sem við erum að gera. Einnig erum við að koma í veg fyrir slæmar ákvarðanir í mataræðinu ef við pössum okkur að borða reglulega yfir daginn, freistumst síður í einhverja vitleysu.

Hér eru nokkrar snjallar hugmyndir að heilsusamlegu og næringaríku snarli sem hægt er að grípa í með lítilli fyrirhöfn heima fyrir eða í vinnunni:

  1. Epli með lífrænu hnetusmjöri
  2. Grísk jógúrt með bláberjum
  3. Þurrkaðir ávextir og hnetur
  4. Sellerístöngar með lífrænu möndlusmjöri
  5. Ferskar grænar sykurbaunir
  6. Hrökkbrauð með kotasælu og papriku
  7. Gulrætur og hnúðkál í strimlum dýft í hummus
  8. Kókósflögur, goji ber og kasjúhnetur
  9. Kirsuberjatómatar, soðið egg
  10. Möndlur, rúsínur, söl

Heilsuhrökkkex:

  • 4 dl sesamfræ
  • 4 dl hörfræ
  • 2 dl graskersfræ
  • 2 dl sólblómafræ
  • 2 dl eggjahvítur (ca 6 stk)
  • 3 dl sjóðandi vatn
  • 1 msk himalaya salt

Þetta er glúteinlaust hrökkkex og er einstaklega trefjaríkt og próteinríkt.

Öllu hrært saman og látið standa í 20 mín, deigi skipt í tvennt og hellt á smjörpappír. Setja annan smjörpappír ofan og dreifa úr með kökukefli ofan á. Baka við 120°C í 60-90 mín eða þar til stökkt. Skera strax með pizzahníf og láta svo kólna.

Ásdís xoxo

what do you think?

Netfang þitt verður ekki birt.