TOP

Um Ásdísi

Ásdís Ragna Einarsdóttir, grasalæknir B.Sc., MNIMH MCPP 

Ásdís útskrifaðist með BSc í grasalækningum frá University of East London árið 2005 og hefur rekið eigin stofu um árabil þar sem fjöldi einstaklinga hefur leitað til hennar í ráðgjöf.  Ásdís hefur mikla ástríðu fyrir því að miðla heilsuboðskapnum til sem flestra og heldur reglulega fyrirlestra og námskeið um allt land m.a. um áhrif og notkun lækningajurta, gerð jurtasmyrsla, breytingaskeið kvenna, grasalækningar, heilsusamlegt mataræði, jurtir fyrir börn, hreinsun o.fl. Einnig heldur Ásdís tínslunámskeið á hverju sumri og fer með hópa út í náttúruna og kennir þeim á jurtirnar.

Ásdís er meðlimur í helstu fagfélögum grasalækna um heim allann, National Institute of Medical Herbalists og College of Practioners of Phytotherapy.

Áhugi Ásdísar Rögnu á virkni lækningajurta og hæfni þeirra til að bæta heilsu fólks kviknaði snemma á lífsleiðinni. Hún hefur lengi haft brennandi áhuga á því hvernig við getum haft áhrif á heilsuna frá náttúrunnar hendi og hvaða áhrif þessi fjölmörgu virku efni úr jurtunum hafa á mannslíkamann. Starf Ásdísar sem grasalæknir er fyrst og fremst fólgið í því að meðhöndla einkenni og kvilla á heildrænan og náttúrulegan hátt og líta á líkamann sem eina heild og bæta almenna starfsemi líffærakerfa.

Til Ásdísar Rögnu leitar fólk með ýmis einkenni og kvilla eins og t.d. meltingavandamál, mígreni, síþreytu, gigt, húðvandamál, kvefsýkingar, fæðuóþol, hormónaójafnvægi, svefnleysi, o.fl.

Markmið hennar er að hvetja og leiðbeina fólki í að efla heilsu sína með heilsusamlegu mataræði, góðum lífsvenjum og notkun lækningajurta og vinna markvisst í átt að bættri heilsu og orku til frambúðar!