TOP

Dásamleg döðlukaka með karamelllukremi

Þeir sem þekkja mig vita hversu mikill sælkeri ég er en ég er mikið fyrir kökur og súkkulaði og finnst yndislegt að geta bakað og notað hollara hráefni sem fer betur með líkaman og blóðsykurinn. Það er nefnilega yfirleitt auðvelt að skipta út einhverju óhollu í uppskrift og setja í staðinn t.d. hollara mjöl eins og gróft heilhveiti, gróft spelt eða möndluhveiti. Svo er orðið mjög þægilegt að skipta út hvítum sykri yfir í xylitol, erythriol, pálmasykur, sukrin eða sugarless sugar en með allar þessar náttúrulegu sætur þá er hægt að skipta á sléttu bolli á móti bolla í uppskrift. Þó að smjör sé auðvitað hollt í hófi þá vilja sumir nota annað en þá er hægt að nota kókósolíu í staðinn. Þar sem það er helgi framundan  og aldrei að vita nema gesti ber að þá langar mig að gefa ykkur uppskrift að döðluköku sem ég nota oft á mínu heimili og hún slær alltaf í gegn og með betri kökum sem ég hef bakað. Hentar bæði sem desert eða í góðu kaffiboði.

Döðlukaka:

235 g döðlur gróft saxaðar

120 g mjúkt smjör (eða 1 dl kókósolía)

3-5 msk kókóspálmasykur eða sugarless sugar (Now)

1 ¼ b heilhveiti eða spelt eða möndluhveiti

1 lúka saxaðar pekan eða valhnetur (má sleppa)

1 1/3 msk vínsteinslyftiduft

½ tsk sjávarsalt

1 tsk vanilluduft

2 egg

Vatn

Karmellusósa:

120 g smjör (eða 1 dl kókósolía)

100 g kókóspálmasykur

½ tsk vanilla eða vanillustevíu 10 dropar

¼ b rjómi (eða kókósmjólk)

Aðferð:

Setjið döðlur í pott og látið vatn fljóta rétt yfir. Látið suðuna koma upp og slökkvið þá á hitanum. Leyfið döðlumaukinu að standa í ca 3 mín í pottinum og bætið þá matarsódanum við og hrærið. Þeytið egg og sykur saman þar til ljóst og létt, bætið smjöri/olíu við, döðlumauki og rest af uppskrift saman við. Bakið við 180°C í 30-40 mín. Karmellusósa, allt sett í pott og soðið við vægan hita þar til sósan er hæfilega þykk. Hafa í skál til að skvetta ofan á köku;) Borið fram með þeyttum rjóma ef vill.

Njótið!