TOP

Betri svefn náttúrulega

Svefnleysi er algengur kvilli sem getur haft mikil áhrif á dagleg störf okkar. Hér ætla ég því að gefa ykkur nokkur ráð sem geta gagnast við vægu svefnleysi en hafa ber í huga að stundum er þörf á að leita til fagaðila ef um alvarlegt svefnvandamál er að ræða. Svefnleysi getur leitt af sér aðra kvilla en einnig verið afleiðing undirliggjandi sjúkdóma. Því er mikilvægt að reyna finna út orsök svefnleysis og vinna á með viðeigandi hætti.

Að temja sér góðar svefnvenjur er mikilvægt og gott að hafa reglulega rútínu á kvöldin eins og fara í heitt bað, lesa, nota slökun, hugleiðslu og hlusta á róandi tónlist sem fær okkur til að líða vel. Einnig getur verið gott að deyfa ljósin í húsinu þegar tekur að kvölda en það fær heilann til að framleiða melatonin (svefnhormón). Forðast að verja löngum tíma við tölvu eða sjónvarp og stunda líkamsrækt mjög seint en það getur haldið fyrir okkur vöku. Of þungar máltíðir, koffíndrykkir, tóbak og áfengi seint á kvöldin geta einnig haft truflandi áhrif á svefn okkar.

Ýmis fæða inniheldur amínósýruna tryptophan sem hjálpar líkamanum að framleiða melatonin og finnst m.a. í grófu korni eins og byggi og hýðisgrjónum, hummus, jarðhnetum, eggjum, í kjúklingi, sesamfræjum, kotasælu og osti, sojavörum, bönunum, granateplum og engifer.

Svæfandi og róandi jurtir geta verið mjög gagnlegar gegn svefnleysi og gott að drekka te af eftirfarandi jurtum á kvöldin; kamilla, vallhumall, hjartafró, humall og lindiblóm. Jurtirnar innihalda virk efni sem framkalla róandi og sefandi áhrif.