TOP

Vænleg haustuppskera

vænleg haustuppskera

Haustið er yndislegur tími þar sem matvörubúðirnar fyllast af brakandi fersku grænmeti og við fáum að njóta þess besta úr íslenskri ræktun fram eftir hausti. Það er góð tilfinning að vita til þess að skáparnir á heimilinu séu fullir af góðgæti eftir ríkulega uppskeru sumarsins og nú er búið að fylla frystikistuna af villtum laxi, rabbabara, íslenskum bláberjum, krækiberjum, sólberjum, grænu káli og kryddjurtum til að eiga fyrir veturinn. Þess utan er maður búin að taka upp kartöflur, gulrætur og rauðrófur sem eiga eftir að nýtast vel ofan í heimilisfólkið næstu daga.

Svona til að gefa ykkur smá innsýn í það hvernig ég ætla mér að nýta allt þetta flotta hráefni þá ætla ég t.d. að vera dugleg að nota rabbabarann í sultur, grauta og eftirrétti, nota berin í sultur, múffur, hristinga og út á hafragrautinn og skyrið. Svo frysti ég grænkál og kryddjurtir eins og piparmyntu ýmist í plastpoka eða mauka fyrst og set í klakabox og nota í holla hristinga og jafnvel súpur. Læt fylgja með tvær myndir sem sýna smá brot af uppskerunni.

Mér hefur fundist það mjög áberandi undanfarin misseri hvað fólk er orðið duglegt að rækta sitt eigið grænmeti og eins vaxandi áhugi fólks á berjatínslu og nýtingu náttúrunnar í ýmsu formi. Vonandi heldur þessi þróun áfram og að hér muni rísa heilu gróðurhúsin í framtíðinni og við ræktað mikið af grænmetinu okkar sjálf með hreina vatninu okkar, jarðhitanum og tæra súrefninu sem við búum að á þessu fallega landi, hver veit…