TOP

5 Orkugefandi jurtir

Hver kannast ekki við að vera þreytt/ur? Við lendum öll í því að upplifa þreytu en það að vera orkulaus oft er ekki eitthvað sem við eigum að sætta okkur við. Þess í stað eigum við að finna lausn á því hvernig við getum styrkt kerfið okkar og aukið orkuna okkar með náttúrulegum leiðum. Ég ætla kenna ykkur að nota nokkrar vel valdar lækningajurtir sem hafa góð áhrif á orkuna.

Síberíu ginseng (Eletherucoccus senticosus)

Þessi magnaða jurt dregur úr þreytu, eykur getu líkamans til að takast á við stress, styrkir nýrnahettur og styður við ýmsa hormónaframleiðslu í líkamanum. Ein rannsókn sýndi fram á að síberíu ginseng jók hæfni líkamans til að standast líkamlegt og andlegt álag.

Síberíu ginseng er upphaflega komin frá Rússlandi og hefur verið notað þar í landi til að auka mótstóðu gegn líkamlegri og andlegri streitu, auka orku, koma jafnvægi á hormónakerfi og auka langlífi. Athugið að Síberíu ginseng hefur ekki nákvæmlega sömu virkni og aðrar ginseng tegundir eins og Korean ginseng og Rautt eðal ginseng en flestir virðast þola betur Síberíu ginseng en hún er ekki sterk örvandi heldur meira uppbyggjandi fyrir orkuna til lengri tíma. Ekki æskileg fyrir fólk með háþrýsting.

Lakkrísrót (Glycyrrhiza glabra)

Hér er að sjálfsögðu átt við hreina lakkrísrót en hún hefur lengi verið notuð til að auka orku og er fjölvirk jurt sem einnig er bólgueyðandi, mild hægðalosandi, græðandi fyrir slímhúð í meltingarvegi og hálsi. Hún styrkir útkeyrðar og þreyttar nýrnahettur og hefur þannig áhrif á orku en nýrnahetturnar eru streitulíffærin okkar og framleiða m.a. hormónin adrenalín og kortisól sem hvoru tveggja hafa áhrif á orku og úthald.

Lakkrísrótin inniheldur efni sem heitir glycyrrhizin sem ýtir undir náttúrulega framleiðslu á kortisóli en algengt er að eftir langvarandi álag eigi líkaminn erfitt með að viðhalda eðilegu magni af kortisóli. Lakkrísrótin dregur einnig úr löngun í sætindi en hún inniheldur virk efni sem eru í eðli sínu sæt á bragðið og geta fullnægt sætindaþörf.

Hafa ber í huga við inntöku á lakkrísrót að hún er ekki æskileg til inntöku fyrir fólk með háþrýsting, nýrnasjúkdóma, ófrískar konur og samhliða bólguhamlandi steralyfjum eða öðrum sterkum lyfjum. Ekki skal nota hana lengur en 8-12 vikur í senn, hvíla í nokkrar vikur/mánuði og byrja aftur ef þörf er á.

Maca rót (Lepidium meyenii)

Maca rótin er í raun eins og grænmetisrófa sem vex í Andes fjöllunum í Perú. Hún hefur verið notuð til lækninga frá örófi alda þar í landi og þá einna helst gegn blóðleysi, ófrjósemi, skertri kynhvöt, breytingaskeiði kvenna og gegn veiku ónæmiskerfi. Hún er líka gagnleg gegn síþreytu, litlu úthaldi og kraftleysi.

Það er gott að nota 1 tsk-1 msk af maca dufti í boosta, grauta, kökur og bakstur.

Ashwagandha (Withania somnifera)

Oftast kölluð ‘indverka gingsenið’ en Ashwagandha er mögnuð orkugefandi jurt sem hefur verið í sviðljósinu undanfarið og margar rannsóknir verið gerðar á henni síðustu ár. Hún inniheldur fjölda virkra plöntuefna ásamt amínósýrum, fitusýrum og fjölsykrum sem eiga þátt í kröftugri virkni hennar.

Ashwagandha er gjarnan notuð gegn streitu, kvíða, vægri depurð og orkuleysi. Hún er talin hafa bólgueyðandi áhrif, aukandi áhrif á kynhvöt, ónæmisstyrkjandi áhrif og jákvæð áhrif á blóðsykur. Hún er tekin inn í duftformi eða hylkjum.

Þari

Algeng orsök þreytu er vanvirkur skjaldkirtill. Þari er joðríkur en skjaldkirtillinn þarf joð til þess að framleiða sín hormón ásamt öðrum efnum. Þarinn er því mikilivægur fyrir starfssemi skjaldkirtils en skjaldkirtillinn stýrir m.a. orkunýtingu í hvatberum frumna og efnaskiptum og hefur þannig mikil áhrif á orkuna.

Einnig inniheldur þari fjölmörg önnur vítamín, steinefni og snefilefni sem öll aðstoða við orkumyndun með einum eða öðrum hætti. Hægt er að nota ýmsar tegundir þara en sjálf nota ég gjarnan beltisþara (e. sugarkelp) og söl sem snakk milli mála eða út í boosta eða súpur þegar við á.
Neyta skal þara í hófi ef viðkomandi er á skjaldkirtilslyfjum eða ef skjaldkirtill er ofvirkur.

Ásdís xoxo

what do you think?

Netfang þitt verður ekki birt.